Ef það er einhver uppskrift sem hefur vakið áhuga hjá handverksfólki í ár, þá er það Ingrid sweater eftir Petiteknit.
Peysuna telja margir sem duggarapeysa, ég er hins vegar ekki alveg sammála því en hver dæmir fyrir sig. Ingrid peysan er prjónuð að ofan frá og niður en ekki með hefðbundnum laska. Hálsmálið, axlir og bakið er mótað fyrst og síðan tekur við bolurinn. Ermar eru gerðar út frá axla-og berustykki með því að taka upp lykkjur. Þetta virkar kannski flókið eða frábrugðið öðrum peysum en það ætti ekki að stöðva neinn sem vill gera sér sína eigin Ingrid. Það sem gerir Ingrid svona fallega eru mynsturbekkirnir sem raðast saman ásamt holumynstri á milli. Ég allavega kolféll við fyrstu sýn en var ekki sannfærð að þessi peysa myndi fara mér.
Ég beið eftir að barnastærðin yrði gefin út og hafðist handa með að gera Ingrid Sweater Junior á strákinn minn. Þar lærði ég ansi mikið og sá hvað ég gæti breytt eða bætt svo peysan myndi líta vel út á mér.
Á Prjónagleðinni á Blönduósi var tekin sú ákvörðun með Kolbrúnu (sem vinnur í Ömmu Mús) að ég yrði nú að eiga eina fjólubláa Ingrid sweater.
Hér er mitt Ingrid Sweater ferli:
Garn: Jensen þráður (litur 12) ásamt silk mohair (litur 12) frá Isager
Notaði garnmagn fyrir stærð S
Mín prjónfesta: 17L á prjónastærð 6
Prjónfesta gefin upp í uppskrift: 20L á prjónastærð 4
Samkvæmt uppskriftinni ætti ég að taka M/L en með grófari prjónfestu passaði að gera stærð XS/S. Ég athugaði hvort þetta myndi nú ekki virka með því að nota reiknivélina á www.lykkjustund.is og ákvað að gera stærð S í bol og XS í ermum.
Núna er ég komin með breiddina á hreint.. En það segir ekki til um lengdina. Með því að gera ca 70% af heildarumferðarfjölda passaði ég að berustykkið og axlirnar urðu ekki of langar og pokalegar. Þegar ég var búin að tengja í hring var gott að máta reglulega og sjá hversu langir mynsturbekkirnir ættu að vera til þess að ég myndi enda með óskaða lengd.
ATH. Ég gerði aðeins 1.5 krossamynstur.
Ég bætti einnig við klauf í hliðarnar (ca 10 cm) með því að skipta lykkjunum á bolnum í tvennt og prjóna fram og til baka. Þegar ég var búin að fella af með ítölsku aðferðinni þá mátaði ég og var ekki alveg nógu sátt með lengdina á peysunni.
Ég ákvað því að klippa stroffið af! Fyrst þræddi ég lykkjurnar upp á hjálparprjón sitthvoru megin við gatamynstrið og klippti á milli. Bætti við einum mynsturbekk við bolinn (ca 8 cm) og lykkjaði framstykkið og bakstykkið af stroffinu við búkinn aftur. Ég tel þessa aðferð vera fljótlegri en að rekja upp ítalska affellingu með mohair þráð - þeir sem skilja…skilja!
Núna var bolurinn orðinn flottur! En þá sneri ég mér að ermunum. Ég vildi ekki hafa þær of víðar svo ég tók upp lykkjufjölda fyrir XS. Mátaði reglulega og aðlagaði mynsturbekkina eftir því. Sleppti að gera úrtökur í krossamynstri svo úrtakan var hressileg fyrir neðan það.
Endaði með ca 38-40L því ég vildi hafa stroffið þröngt í staðinn fyrir vítt. Gerði seinni ermina alveg eins.
Hálsmálið kláraði ég þegar ég var í tímabundinni uppgjöf á bolnum. Lengdi kragann svo ég endaði með lítinn rúllukraga sem ég get brett niður.
Setti peysuna á ullarprógram í þvottavélinni ásamt ullarsápu og viti menn! Það sléttist úr mynstrinu, peysan lengdist um auka 3 cm og varð svo dásamlega mjúk.
Hvernig finnst ykkur útkoman ?
Garn og uppskrift fæst hjá Ömmu Mús.
Færsla var unnin í samstarfi við Ömmu Mús.
Um Garnspjall ViralKnits
@viralknits er instagram reikningur sem Árný Björg lífeindafræðingur heldur úti.
Þar er að finna mjög áhugaverðan fróðleik um prjón og sjálfbærni í prjónaheiminum, sem og hvað Árný er með á prjónunum hverju sinni.