Textíl og garn markaðurinn er í stöðugri þróun, en á síðari árum hafa neytendur byrjað að spá meira í því sem fer í körfuna þeirra. Hvort sem það er karfan í bónus, vefverslun eða fatabúð, þá hugsa flestir sig tvisvar um, ekki satt ?
  
Að dæla vörum hugsanalaust í körfuna sína er OUT - en að vanda valið í körfuna sína er IN.
 
Með það í huga, hvernig vitum við hvort við séum að velja rétta eða betri vöru að hverju sinni ? Svarið við þessari spurningu er persónubundið en það er eitt sem getur hjálpað manni að velja á milli A eða B. 
Þar koma vottanir til sögu! Við skulum skoða A og B nánar seinna í pistlinum.
 

Hvað eru vottanir?

Vottun er í raun loforð framleiðanda að varan þeirra fylgi settum stöðlum svo neytandi hefur aðeins betri hugmynd um hvað hann er að kaupa. Til þess að fá vottun þarf að framkvæma úttekt sem þriðji aðili, sem ber engra hagsmuna að gæta, gerir og metur fyrirtækið hæft til að fá viðeigandi vottun. Þar að auki, kemur þriðji aðilinn reglulega aftur í fyrirtækin til að tryggja að stöðlum sé fylgt annars á fyrirtækið í hættu að missa vottunina.
 

Afhverju eru vottanir mikilvægar?

 
Í fyrsta lagi til að ganga úr skugga um að varan sem neytandi kaupir sé ekki skaðleg mönnum og að hún sé í hæsta gæðaflokki.
 
Í öðru lagi er aukinn rekjanleiki á vöru sífellt að verða mikilvægara hjá meðvituðum neytendum með félagsleg viðmið til hliðsjónar: 
 -Góð kjör og sanngjörn laun fyrir allt starfsfólk
-Vinnuskilyrði skulu vera örugg en ekki heilsuspillandi eða hættuleg
-Varan orsakar ekki eyðingu skógar eða hráefni sé ekki útvegað með ólöglegum hætti o.s.frv
 
Í þriðja lagi til að tryggja að náttúran okkar og dýrin verði ekki fyrir tjóni við framleiðslu á vörum:
-Dýravelferð sé hornsteinn allra fyrirtækja sem vinna með dýr
-Hættuleg efni sem menga grunnvatn og safnast upp í lífríkinu
-Óhófleg notkun á fersku vatni við litun á garni og textíl. Talið er að textíliðnaðurinn noti um það bil 79 trilljón lítrar af vatni árlega.
 
Vottanir auka traust neytenda í garð framleiðanda sem í kjölfarið eykur sölu hjá framleiðanda - Win-Win dæmi.
 

Hvaða vottanir eru algengar fyrir garn ? 

 
OEKO-TEX® á bómull - Standard 100 og Made in Green
Responsible Wool Standard (RWS)
Responsible Alpaca Standard (RAS)
Responsible Mohair Standard (RMS)
Organic Vottun
Global Organic Textile Standard (GOTS)
Woolmark
Recycled Claim Standard (RCS) og Global Recycle Standard (GRS)
 

Hvar eru merkingarnar staðsettar?

 
Merkingar eða logo má finna á vefsíðu fyrirtækisins og einnig á miðanum á dokkunni eða hespunni. Þegar um annan textíl er að ræða þá er merkingin oft á miðanum í hálsmálinu eða á hliðinni, fer eftir flík. 
Það varðar við lög ef framleiðendur setja vottunar merkingu á flík eða garn sem uppfyllir ekki skilyrði né hefur farið í gegnum standard ferli sem veitir þeim vottunina.
 

Oeko-Tex OEKO-TEX®

 

    

 
Á við um garn, textíl, leður osfrv. Standard 100 er eflaust sýnilegasta og útbreiddasta vottunin í textíliðnaðinum en sú vottun tryggir neytanda að varan hafi ekki komist í snertingu við efni sem eru skaðleg heilsu manna. Þetta á við um þræði, rennilása, klæði og tölur og er flokkað í 4 flokka. Class 1-4: flokkar 1-2 á við um garn þar sem efni snertir húð neytandans.
OEKO-TEX® vottunin skiptist í tvennt: Standard 100 og Made in Green.
Staðlar fyrir Standard 100: Engin skaðleg efni mega finnast við skimun á sýnishorni af garni/flík. Þ.e. skaðleg fyrir menn og vistkerfi.
Staðlar fyrir Made In Green eru strangari: Sama og Standard 100 auk þess að framleiðslan miðast af sjálfbærum stefnum og að varan sé rekjanleg til verksmiðju með góðar vinnuaðstæður og kjör fyrir verkafólk.
 

Responsible Wool Standard (RWS)

 
 
RWS vill tryggja gæði á ull, dýravelferð sem og hagstæð kjör til starfsfólksins, sem þýðir að RWS á við frá býli til sölumanns. 
Aðstæður kindanna skulu vera góðar þar sem hreint öruggt vatn og viðeigandi matur er aðgengilegt í ílátum sem eru þrifin reglulega. Fylgst er með heilbrigði kindanna með því að meta Body Condition Score. RWS er með skýra staðla um allt frá stærð bása og loftræstingu í hlöðum til tjóðrunar, vönunar og meðhöndlunar á kindunum. Mulesing er stranglega bannað, auk þess er Tail-docking og fjarlæging á hornum bönnuð nema heilsa dýrsins sé í húfi. 
RWS er með stranga staðla varðandi landbúnað þar sem eyðing skógar og vistkerfa til landbúnaðs er stranglega bönnuð sem og notkun á skaðlegum áburðum & skordýraeitri. Allt starfsfólk sem viðkemur framleiðslunni á að vinna við góðar aðstæður og sanngjörn kjör.
 

Responsible Alpaca Standard (RAS)

 
Sama og RWS nema fyrir Alpaca dýr. Stór hluti af verkafólki í alpaca iðnaðinum, í smábæjum í kringum Perú, fær lítið eða ekkert greitt fyrir vinnu sína út af fátækt og örvæntingu til þess að geta selt ull fyrir smáaur frekar en fyrir ekkert. Fyrirtæki hafa nýtt sér þetta í áratugi. RAS og International Alpaca Association (IAA) koma í veg fyrir ósanngjörn kjör verkafólks, sem og passar upp á Alpaca dýrin. 
 

Responsible Mohair Standard (RMS)

 
 
Sama og RWS nema fyrir geitur sem framleiða mohair. Mohair iðnaðurinn hefur verið umdeildur frekar lengi útaf dýraníð og umhverfisáhrifum. RMS tryggir m.a. gott umhverfi fyrir geiturnar og vinnur gegn eyðingu á gróðurlandi. Þess vegna er mjög mikilvægt að skoða hvort mohair sé rekjanlegt til bænda sem hafa vottanir. 
Mohair South Africa og SAMGA Samtökin tryggja að allir bændur í sínum samtökum séu með RMS vottun. Stór hluti af mohair sem fæst á Íslandi er frá í Suður-Afríku t.d. frá Filcolana, Sandnes, KFO, Kremke. Þó ekki allir garnframleiðendur sækist í að kaupa frá RMS mohair býli.
 

Recycled Claim Standard (RCS) og Global Recycle Standard (GRS)

  

Vottanir fyrir endurunnin efni t.d. ull, gerviefni og bómull. Þegar við sjáum endurunnið þá teljum við það vera græna kostinn en það er ekki alltaf þannig, þar sem endurvinnsla á klæði/garni er orðin virkilega vinsæl þá fóru fleiri að stunda þetta án þess að hafa umhverfisvæn sjónarmið. Endurunnin efni með RCS eða GRS vottun tryggir að endurvinnslan sjálf sé umhverfisvæn (ekki óþarfa eyðsla á vatni eða mengun í frárennslisvatn), notkun skaðlegra efna er óheimil og góð kjör/aðstæður fyrir verkafólk. Endurvinnslan hefur þar með félagslega og umhverfisvæna staðla.
 

Organic certification

 

 

 



Organic eða lífrænn stimpill er lögbundið heiti. Sem dæmi USDA í Bandaríkjunum, Tún á Íslandi og Ø-merki í Danmörku. Lífræn gæði snúast um umhverfi framleiðslunnar, grunnvatn, gróður, dýru, verkafólk og að sjálfsögðu einnig neytendur. Fóður og landbúnaðurinn þarf að vera vottaður lífrænn til þess að ull geti flokkast lífræn. 
 

Lífrænt vs Náttúrulegt

Ull er alltaf náttúruleg en hún er ekki alltaf lífræn. Með þetta í huga, hafið varann á þegar orðalag eins og “Natural” eða “Náttúrulegt” er notað í staðinn fyrir “Lífrænt”. Lýsingin “náttúruleg vara” er frekar loðin, hún má t.d. kallast náttúruleg ef hún inniheldur ull/efni/plöntur/ofl sem finnst í náttúrunni en getur verið mjög unnin með skaðlegum efnum og misst alla “náttúrulega” eiginleika. Þessi lýsing segir því ekkert til um framleiðslu á vöru og lokaafurð hennar.

Sama á við um bómul. Bómull er alltaf náttúrulegur en ekki alltaf lífrænn, samkvæmt heimildum frá textile exchange þá er talið að lífrænn bómull noti allt að 91% minna vatn í framleiðslunni og 98% minna af skordýraeitri. Lífrænn bómull er líka 37% dýrari á markaðnum en hefðbundinn bómull. Er þessi kostnaður ekki réttlætanlegur þegar eyðslan á fersku vatni og mengun af skordýraeitri minnkar verulega ? Hver dæmir fyrir sig en lífræn vottun er mikilvæg í nútíma samfélagi og myndi hjálpa við valið á milli A (hefðbundinn bómull) og B (Lífrænn bómull).  
 

Global Organic Textile Standard (GOTS) 

 
 
GOTS er tvímælalaust umfangsmesta og alhliða vottunin sem garn og textíll getur fengið á markaðnum í dag. Fyrirtæki verða að nota rekjanlegar lífrænar afurðir og sýna algjört gagnsæi í vinnslu, framleiðslu, pökkun, merkingu og dreifingu. GOTS skoðar ekki bara býli til lokaafurðar heldur þurfa ferlar heildsala á innflutningi og útflutningi vöru að fylgja þeirra stöðlum. Fulltrúi frá GOTS gerir árlega úttekt á vottuðum fyrirtækjum til að tryggja að allir fari eftir settum stöðlum. 

Vörur í gæðaflokki
 
Allt garn sem er með GOTS vottun inniheldur lífræna þræði af t.d. ull eða bómull, sem er rekjanlegt til bónda með gegnsæja lífræna framleiðslu. Merkingarnar eru tvennskonar - Organic GOTS eða “Made with % organic material” merking. Organic GOTS þarf að innihalda amk 95% af lífrænt vottuðu garni eða annarskonar þráðum samkv. IFOAM, USDA, NPOP og China Organic Std. en amk 70% fyrir síðari gerðina. Lífrænir þræðir eiga aldrei að komast í snertingu við skaðleg efni, t.d. mega litarefni ekki innihalda ofnæmisvaldandi né krabbameinsvaldandi efni og olían sem notuð er til að smyrja vélar má ekki innihalda þunga málma.
  
Aukaefni sem er bætt við í garn með Organic GOTS stimpil:
 
-Má ekki vera meira en 10%
-Má vera endurunnið Lyocell (Tencel), viscose eða modal.
-Polyamid og polypropylene
-Óheimilt að nota: hefðbundna bómull eða angóruhár, nýframleitt polyester, ull sem er ekki mulesing free, asbestos og akrýl.
 
Umhverfisstaðlar innan GOTS
 
-Öll fyrirtæki með GOTS eru með skýrar umhverfisstefnur sem lýsa ferlum innan fyrirtækisins til að lágmarka t.d. nýtingu á orku og vatni, loftmengun og mengun á vatni, einnig setja sér markmið til að efla umhverfisstefnur sínar osfrv.
-Til að lágmarka mengun í frárennslisvatn er notkun á t.d. klór, eldþolnum efnum og þungum málmum á garnþráðum með öllu bannað. Það á einnig við óniðurbrjótanleg efni eins og plast, þess vegna getur hefðbundið superwash garn (klór-Hercosett) ekki fengið GOTS vottun. Önnur skaðleg og mengandi efni eru einnig bönnuð.
-Lágmörkuð nýting á vatni t.d. á GOTS vottaðri bómull og þegar garn er litað.
-Lágmörkuð notkun á einnota vörum t.d. er notkun á einnota herðatré úr plasti eða plastpokum óheimil.
Dýravelferð innan GOTS
-Mulesing er bönnuð sem og tail-docking og fjarlæging horna
-Ofbeldi í garð dýranna er stranglega bannað
-Allar nauðsynlegar aðgerðir eru gerðar MEÐ staðdeyfingu
-Dýr búa við góðar aðstæður, fá hreint vatn og viðeigandi fóður.
 
Félagsleg áhrif innan GOTS
 
-Verkafólk vinnur á góðum kjörum eða svokölluðum “Living wages” og við góðar aðstæður.
-Vinnutíminn er sanngjarn
-Barnaþrælkun óheimil.
 
GOTS vottunum fjölgaði um 34% á milli áranna 2019-2020 og eru nú 10,400 fyrirtæki sem hafa verið GOTS vottuð í heiminum. Sem þýðir að yfir 4 milljónir verkafólks fá sanngjörn kjör í textíliðnaðinum í 72 löndum. Þetta er stórt skref í rétta átt því textíliðnaðurinn hefur verið þekktur fyrir að borga verkafólki sínu lítið sem ekkert og látið það vinna 16+ klukkustunda vaktir við hættulegar og/eða heilsuspillandi  aðstæður.
Samkvæmt könnunum þá tóku 83% fyrirtækjanna eftir aukinni sölu eftir GOTS vottunina sem þýðir að markaðurinn er greinilega að kalla eftir þessu.
 

Aðrar vottanir:

 
REACH vottun - Verndar heilsu manna og umhverfið með því að sporna gegn notkun á skaðlegum efnum í textíl, garni, hreinsiefnum, málningu osfrv. Garn frá Knitting for Olive er með REACH vottun.
 
Nú þegar við erum búin að fara hérna yfir vottanir af öllum “stærðum” og gerðum. Mun þetta hjálpa ykkur á velja á milli A og B ef þið sjáið einhverja af þessum vottunum á merkimiða á flík, garni eða jafnvel hreinsiefni ? 
Framleiðendur sækjast eftir þeim vottunum sem neytendur á markaðnum krefjast og sækjast frekar í. Það undirstrikar mikilvægi þess að vera með háa standarda og velja gæði umfram allt. Það mætti segja að garnframleiðslan sé í höndum prjónarans því þegar allt er á botninn hvolft þá er garn framleitt fyrir okkur og við setjum því staðallinn.
 

Samantekt

 
Þegar fyrirtæki uppfylla vissa staðla þá geta þeir öðlast vottun.
Vottun er framkvæmd af þriðja aðila.
Vottanir vernda dýr, náttúru og mannfólk.
Margar gerðir eru til af vottunum sem garnframleiðendur geta sótt um.
 
Umfangsmesta vottunin á markaðnum í dag er GOTS vottunin.
Við sem neytendur berum ábyrgð á neyslumynstri okkar og getum krafist að versla garn sem og aðrar vörur sem eru í hæsta gæðaflokki. 
 

Heimildir

Vefsíður vottana
 
 
 
 

@viralknits