Við í Ömmu mús erum mjög ánægðar að kynna nýjan lið á heimasíðu okkar: Garnspjall Viralknits, í samstarfi við Árnýju hjá Viralknits. Í hverjum mánuði eða svo, kemur nýtt umræðuefni, kynningar og aðrir skemmtilegir viðburðir í kringum það.
  
Viralknits er Instagram reikningur sem Árný Björg lífeindafræðingur heldur úti. Þar er að finna mjög áhugaverðan fróðleik um prjón og sjálfbærni í prjónaheiminum, sem og hvað Árný er með á prjónunum hverju sinni. Við vildum fá að kynnast Árnýju aðeins betur og báðum hana um að segja aðeins frá sjálfri sér:
  
  
  
  
Ég heiti Árný Björg og ég bý í Reykjavík ásamt kærasta og 2 ára snillingnum okkar, Hinriki Erni. Ég er menntaður lífeindafræðingur, MSc. og er mjög stolt kona í vísindum. Eins og margir Íslendingar þá hef ég prjónað síðan í barnæsku en sturluð staðreynd: ég seldi vettlinga og húfur á básum víða um landið á fermingaraldri. Það myndi ég segja að hafi verið fyrsta atvinnan mín en ég prjónaði hins vegar ekki peysur fyrr en um tvítugt.
  
Ég hef brennandi áhuga á vísindum, sjálfbærni og umhverfismálum, og ég yfirfæri það einnig á áhugamálið mitt: Prjónaskap. Með því að velja vistvænni kosti í daglegu lífi, minnkar fótsporið sem við skiljum eftir á okkar fallegu jörð. Þetta eru litlar ákvarðanir sem við tökum meðvitað daglega en ég tel að breytingin yfir í umhverfisvænt og rekjanlegt garn sé mikilvægt skref fyrir alla prjónara. Þetta er mjög einfalt en á sama tíma áhrifamikið skref, sem betur fer hefur aðgengi og möguleikarnir á umhverfisvænu garni aukist verulega á síðustu 5 árum. Ég myndi segja að markaðurinn fyrir hágæða garn hefur aldrei verið betri.
  
  
  
  
Eftir að ég minnkaði neyslu mína á "Fast Fashion" vörum, fór ég einnig að vanda valið á gerð garns. Í lok 2020 ákvað ég að versla ekki lengur peysur og aðra hluti sem ég gæti prjónað á mig og heimilisfólkið mitt. Á sama tíma hætti ég að nota garn sem inniheldur óumhverfisvæn gerviefni (akrýl, nylon, polyamide), forðast superwash meðhöndlað garn og kýs frekar hreina ull frá fyrirtækjum með góðum gildum og vottunum.
  
  
  
  
Ekki nóg með það, þá er ég líka mikill afgangaprjónari og hélt tvö afganga-samprjón árið 2021 með góðum undirtektum. Yfir 1000 prjónarar tóku þátt í seinna afganga-samprjóninu og yfir 55 kg af afgangsgarni öðlaðist nýtt líf í staðinn fyrir að enda í landfyllingu. Ég elska að sjá gamla hluti eða í þessu samhengi “garn afganga” öðlast nýtt líf en ég hef einnig eytt miklum tíma í Góða Hirðinum að spotta húsgögn sem er hægt að nostra við.
   
Miðillinn minn á instagram (@viralknits) er sambland af prjóni og einnig fræðslu um málefni sem eru mér kær í garnheiminum. Þar má m.a. finna örfyrirlestra um allt sem viðkemur garni og innblástur fyrir afgangaprjóni.
     
 Endilega fylgist með en á næstunni munu detta inn færslur og fréttir um þetta skemmtilega samstarf!